AFL starfsgreinafélag

Úthlutun um páska - sumaúthlutun orlofshúsa

Úthlutun orlofshúsa um páska er lokið og verið að vinna í biðlistum umsókna.  Opnað verður á næstu dögum fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum AFLs í sumar - en úthlutað verður 9. apríl nk.  Ástæða þess að ekki er búið að opna fyrir umsóknir er sú að verið er að ganga frá samningum um hús sem félagið leigir frá öðrum aðila til að framleigja til félagsmanna AFLs.

Auglýst eftir stjórnarmönnum í Birtu Lífeyrissjóð

Valnefnd Birtu lífeyrissjóðs auglýsir eftir frambjóðendum til þess að taka sæti í stjórn sjóðsins kjörtímabilið 2025 til 2027.

Fulltrúaráð launamanna Birtu kýs tvo stjórnarmenn (karl og konu) til tveggja ára og einn varamann (karl) til tveggja ára í stjórn sjóðsins.

Samkvæmt samþykktum Birtu lífeyrissjóðs (gr. 5.10) hefur valnefnd m.a. þann yfirlýsta tilgang að tryggja að stjórn sjóðsins endurspegli fjölbreytni og breidd í hæfni, reynslu og þekkingu stjórnarmanna sem og að tryggja gagnsæi í málum um tilnefningu stjórnarmanna.

Áhugasamir geta gefið kost á sér með því að senda inn umsókn í formi útfyllts framboðseyðublaðs og senda það á netfangið Ten adres pocztowy jest chroniony przed spamowaniem. Aby go zobaczyć, konieczne jest włączenie w przeglądarce obsługi JavaScript. fyrir kl. 16.00 laugardaginn 22. febrúar 2025.

Fyrirspurnir skulu einnig berast á netfangið: Ten adres pocztowy jest chroniony przed spamowaniem. Aby go zobaczyć, konieczne jest włączenie w przeglądarce obsługi JavaScript.

Áhyggjur af heilbrigðisþjónustu fyrir landsbyggðina

flugvelFélagsmenn AFLs sem og aðrir íbúar landsbyggðarinnar hafa áhyggjur af framtíð sjúkraflugs til Reykjavíkur og tilvist flugvallarins.  Stjórn Landssambands Íslenskra Verslunarmanna deilir þessum áhyggjum og ályktaði eftirfarandi.:

Ályktun stjórnar LÍV vegna heilbrigðisþjónustu fyrir félagsfólk LÍV

Stjórn Landssambands íslenzkra verslunarmanna (LÍV) lýsir yfir þungum áhyggjum af heilbrigðisþjónustu fyrir félagsfólk LÍV sem býr utan höfuðborgarsvæðisins í kjölfar ákvörðunar um að loka annarri af tveimur flugbrautum á Reykjavíkurflugvelli. Það eru óboðlegt að slík ákvörðun sé tekin án þess að öryggi sjúklinga sé tryggt og ljóst að hún mun í einhverjum tilfellum hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga sem þurfa flutning til Reykjavíkur með sjúkraflugi.

Það er krafa LÍV að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessari stöðu, Reykjavíkurborg, Isavia, Samgöngustofa og Innviða- og Heilbrigðisráðuneytið, bregðist tafarlaust við með því að opna flugbrautina á ný og eyða þar með óvissu um öryggi og velferð sjúklinga víðsvegar um landið þar til önnur lausn er komin í notkun og á meðan flugvöllurinn er í Vatnsmýri.

VR og AFL funda með Fjarðabyggð vegna hækkunar leikskólagjalda

LeikskolagjHaekkunMyndatexti: Fundinn sóttu fyrir hönd VR og AFLs (talið frá vinstri): Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, Kristín María Björnsdóttir, formaður deildar VR á Austurlandi, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, Birkir Snær Guðjónsson, varaformaður AFLs, og Ásdís Helga Jóhannsdóttir, eftirlits- og kjarafulltrúi hjá AFLi.

VR og AFL – Starfsgreinafélag funduðu í gær með bæjarráði og bæjarstjóra Fjarðabyggðar til að mótmæla fyrirhugaðri hækkun leikskólagjalda í sveitarfélaginu. Samkvæmt útreikningum AFLs hækka leikskólagjöld um 40% ef miðað er við átta stunda vistunardag en um 62% fyrir 8,5 klukkustundir. Inni í þessu er upptaka tuttugu svokallaðra skráningardaga yfir skólaárið sem foreldrum er gert að greiða sérstaklega fyrir. Þrátt fyrir að fyrirhugað gjald fyrir hvern skráningardag hafi lækkað úr fimm þúsund krónum í þrjú þúsund krónur hleypur hækkunin á tugum prósenta.

Á fundinum lögðu Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, áherslu á að við undirritun kjarasamninga í fyrra hafi verið samið um að sveitarfélög héldu aftur af gjaldskrárhækkunum. Tugprósenta hækkun á leikskólagjöldum gangi því í berhögg við kjarasamninga. Enn fremur sé ótækt að varpa byrðum vegna mönnunar- og skipulagsvanda leikskóla yfir á herðar foreldra sem stunda launavinnu. Sveitarfélagið beri ábyrgð á að leita annarra lausna.

„Við teljum að með þessum leikskólagjaldahækkunum gangi Fjarðabyggð í raun gegn þeim kjarasamningum sem samþykktir voru á síðasta ári. Af fundinum er ljóst að markmiðið er að fækka þeim dögum sem börn eru í leikskóla en einnig að áhrif þeirrar stefnu á bæði launafólk og jafnrétti kynjanna hafa ekki verið tekin með í reikninginn. Við lögðum áherslu á að við höfum fullan skilning á þeim vanda sem leikskólar víða um land standa frammi fyrir og varða mönnun, kjör og aðbúnað. Við mótmæltum því hins vegar að byrðunum vegna þess væri velt yfir á launafólk sem á börn á leikskólaaldri,“ segir Halla Gunnarsdóttir, formaður VR.

Hækkun á leikskólagjöldum í Fjarðabyggð á að ganga í gildi í mars nk. Það er von bæði VR og AFLs að bæjarstjórn Fjarðabyggðar taki hækkun leikskólagjalda til endurskoðunar með tilliti til kjarasamninga og áhrif á launafólk.

Opið fyrir umsóknir um páska

Búið er að opna fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum AFLs og íbúðum um páskana.  Dregið verður úr umsóknum um dvöl í orlofshúsum AFLs en í íbúðir félagsins í Reykjavík og á Akureyri gildir "fyrstur kemur fyrstur fær.  Staðfestingagjald bókunar er kr. 5.000 og er það ekki endurgreitt falli félagi síðan frá bókun.

Eindagi fullnaðargreiðslu er 15. mars.  Leigutímabil bæði orlofshúsa og íbúða er 16. - 23. apríl. Hægt er að bóka íbúðir beint á mínum síðum AFLs eða sækja um dvöl í orlofshúsi.

Verkalýðshreyfingin og leikskólagjöld

Umfjöllun AFLs um fyrirhugaða gjaldskrárhækkun leikskóla í Fjarðabyggð hefur fengið stuðning annarra verkalýðsfélaga og sambanda.  Þannig ályktaði Formannafundur  Starfsgreinasamband Íslands fyrir 10. des. sl. :

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands varar við þeirri þróun sem orðið hefur í leikskólamálum víða um land, þar sem daglegur vistunartími er styttur í 6 klukkustundir en gjald fyrir dvalartíma umfram þann tíma er hækkað verulega. Einnig hefur svokölluðum skráningardögum fjölgað, þ.e.a.s. dögum sem ekki eru innifaldir í föstu mánaðargjaldi og greiða þarf sérstaklega fyrir.

Þeir foreldrar, sem vinnu sinnar vegna hafa ekki tök á því að stytta vistunartíma barna sinna, greiða eftir breytingarnar mun hærra gjald en áður svo nemur tugum prósenta. Bitnar þetta helst á tekjulágum foreldrum með lítið stuðningsnet og lítinn sveigjanleika í starfi.

Þótt sveigjanleiki hafi aukist hjá þeim hluta vinnumarkaðarins sem nýtur styttingu vinnuvikunnar, hefur stærstur hluti félagsmanna aðildarfélaga SGS alls enga styttingu fengið - vinnur ennþá 40 stunda vinnuviku og hefur ekki tök á að vinna að heiman hluta úr degi eða sækja börn fyrr á leikskólann. Þessi staðreynd virðist hafa farið fram hjá þeim sem stýra leikskólamálum.

Þangað til stytting vinnuvikunnar hefur verið innleidd hjá vinnumarkaðinum í heild sinni er þessi viðsjárverða þróun algerlega ótímabær. Hún mun draga úr ráðstöfunartekjum tekjulægstu heimilanna, auka ójöfnuð, grafa undan atvinnuþátttöku og er dýrkeypt bakslag í jafnréttisbaráttunni sem þó á enn langt í land.

Formannafundur Starfsgreinasamband Íslands krefst þess að sveitarfélög leiti annarra leiða til að leysa mönnunarvanda leikskólanna, þessi leið er of dýru verði keypt.

 

Þá fjallaði stjórn VR um málið á stjórnarfundi og á heimasíðu félagsins segir m.a.:

Stjórn VR gagnrýnir harðlega ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar að hækka leikskólagjöld frá og með mars á næsta ári og skerða þjónustu við fjölskyldur í sveitarfélaginu. Með þessari ákvörðun fetar bæjarstjórn sveitarfélagsins í fótspor Kópavogsbæjar sem fyrir ári hækkaði leikskólagjöld í bænum og dró úr þjónustu (sjá ályktun stjórnar VR). Þessar ákvarðanir hafa óhjákvæmilega í för með sér umtalsverða kjaraskerðingu fyrir launafólk. 

Breyting á leikskólagjöldum í Fjarðabyggð mun leiða til mikillar hækkunar á gjöldum fyrir fjölmarga foreldra í sveitarfélaginu, hækkun fyrir dagvistun barns í fullri dagvistun nemur tugum prósenta, samkvæmt útreikningum AFLs starfsgreinafélags. Þá mun skráningardögum fjölga en fyrir vistun á þeim dögum þurfa foreldrar að greiða aukalega (sjá hér frétt á vef AFLs).

Stjórn VR ítrekar að leikskólamál eru kjaramál og skipta launafólk miklu máli. VR styður kjarabætur til leikskólastarfsfólk og telur brýnt að starfsaðstæður þess verði bættar. Stytting leikskóladags barna er af hinu góða, en sú stytting verður að vera samhliða styttingu vinnuvikunnar á hinum almenna vinnumarkaði.  

Stjórn VR mótmælir því að sveitarfélög varpi allri ábyrgðinni á foreldra sem margir eru í þeim sporum að hafa ekki stuðningsnet, kjör eða aðstöðu til að bregðast við. Stjórnin hvetur sveitarfélög til að leita annarra leiða til að koma til móts við breytingar í umhverfi leikskóla en að skerða kjör launafólks og færa baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna mörg ár aftur í tímann.  

Reykjavik 11. desember 2024 
Stjórn VR