AFL starfsgreinafélag

Á Íslandi þrífst þrælahald - forsetapistill

drifa

Í fréttum stöðvar 2 í gærkveldi var upplýst um ömurleg kjör og aðbúnað fjölda rúmenskra verkamanna. Laun hafa ekki verið greidd og aðbúnaður er allur hinn versti. Þeir búa saman sex í einu herbergi og eiga ekki peninga fyrir nauðsynjum. Þetta er ekki einsdæmi og því miður berast örugglega ekki öll svona mál til okkar því margir fara til síns heima aftur eftir að hafa verið beittir atvinnuofbeldi. Barátta verkalýðshreyfingarinnar til margra ára gegn félagslegum undirboðum og glæpastarfsemi á vinnumarkaði er ekki úr lausu lofti gripin og það er hreint hörmulegt að ekki sé enn komin aðgerðaráætlun í mansalsmálum og skipulagt samræmt eftirlit með öflugri eftirfylgni sem hefur að markmiði að uppræta þessa brotastarfsemi með öllum tiltækum ráðum.

Þegar svona mál koma til stéttarfélaganna bráðvantar að geta haft samband við einhvern ábyrgan aðila sem samræmir aðgerðir og mætir þörfum þolenda. Það þarf að tryggja öryggi fólks, redda húsnæði, mat og stundum heilbrigðisþjónustu auk þess að skipuleggja aðgerðir yfirvalda gegn fyrirtækjum. Allt þetta þarf að gerast fljótt, örugglega og fumlaust. Í dag höfum við ekki þetta skipulag og glæpamenn sem eru svo fégráðugir að þeim er sama um grundvallar mannréttindi geta þannig vaðið uppi nánast óáreittir. Þessi glæpafyrirtæki geta svo boðið lágt verð í framkvæmdir, jafnvel á vegum ríkis og sveitarfélaga því það er sannanlega ódýrara að fá þræla til verksins en fólk sem krefst launa.

Stöðvum þetta núna! Fjármögnum aðgerðaráætlun gegn mansali, komum á keðjuábyrgð, stöðvum kennitöluflakk, styrkjum útboðsskilyrði og þéttum og samræmum eftirlit og aðgerðir gegn brotafyrirtækjum! Ef við grípum ekki til aðgerða getum við allt eins gefið út yfirlýsingu um að okkur sé sama um að hér þrífist þrælahald. Allt þetta og meira til er að finna í tillögum í tengslum við kjarasamninga gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði. En það á ekki að þurfa þrýsting sem lausir kjarasamningar bjóða uppá til að taka á grundvallar mannréttindum. Það er mælikvarði á siðmenntað samfélag hvernig við komum fram við þau sem eru í viðkvæmustu stöðunni.

Góða helgi,
Drífa

Konur af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði - ný skýrsla

ErlendarKonur

Starfsgreinasamband Íslands sendi nýlega frá sér skýrslu um konur af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Það var Rannveig Gústafsdóttir sem vann rannsóknina fyrir SGS með dyggri aðstoð þriggja stéttarfélaga; Eflingar, Einingar-Iðju og Bárunnar.

Kveikjan að verkefninu var #metoo-byltingin sem kom fram síðasta vetur en í rannsókninni var þó ákveðið að einblína ekki sérstaklega á erlendar konur sem höfðu orðið fyrir brotum á vinnumarkaðnum heldur að athuga hvort stéttarfélögin á Íslandi gætu stutt betur við konur af erlendum uppruna og styrkt þar með þátttöku þeirra á vinnumarkaðnum. Staða erlendra kvenna var skoðuð, við hvaða skilyrði þær starfa, hvernig þær koma inn á vinnumarkaðinn og hvernig tekst að koma til þeirra upplýsingum um réttindi þeirra á vinnumarkaði.

settir voru saman fjórir rýnihópar sem samanstóðu af konum af erlendum uppruna. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þeir félagsmenn sem þekktu til stéttarfélaganna voru almennt ánægð með þá þjónustu sem stéttarfélögin veita. Það sem þarf að athuga frekar eru gæði íslenskunámskeiða og leggja þarf frekari áherslu á tölvunámskeið fyrir fólk af erlendum uppruna með tillit til þess að flest sem viðkemur íslensku samfélagi fer fram í gegnum Internetið. Auk þess kom mikilvægi trúnaðarmannsins sterklega í ljós.

Í ljósi þess að Ísland í dag er fjölmenningarsamfélag er mikilvægt að upplýsingar stéttarfélaga komi fram á fleiri tungumálum en íslensku. Skýrslan sjá hér

Hófleg bjartsýni - Fréttabréf AFLs

Eingreiðslur um mánaðamótin. Af hverju eru einyrkjar og sjálfstæðir í AFLi? Kynbundinn launamunur eykst. Birkir Snær persónuverndarfulltrúi AFLs. Meirihluti nýtir sér þjónustu félagsins. Hvað ef vinnuveitandinn vill láta trúnaðarlækninn skoða þig? Færri ósáttir. Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka er meðal efnis í nýju fréttabréfi AFLs, sjá fréttabréf

Frettabref1 2019

Mikilvægur áfangi í baráttunni gegn brotastarfsemi

Brotastarfsemi á borð við kennitöluflakk og mansal er óásættanleg meinsemd á íslenskum vinnumarkaði. Slík háttsemi hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir launafólk, atvinnulífið og samfélagið allt og veldur bæði persónulegu og samfélagslegu tjóni. ASÍ hefur á undanförnum árum opinberað margar ljótar sögur af glæpastarfsemi á vinnumarkaði en á sama tíma gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart slíkum brotum.

Alþýðusamband Íslands fagnar því sérstaklega niðurstöðu starfshóps aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda sem var algjörlega einróma í sínum tillögum. Í þeirri vinnu hlutu tillögur ASÍ um úrbætur mikinn hljómgrunn. Áralöng barátta ASÍ gegn athæfi svindlarana virðist því hafa skilað árangri.

Lagt er til að löggjöf og regluramminn verði treystur og bætt úr núverandi göllum. Þá er lagt til að samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins gegn svikastarfseminni verði formbundið til framtíðar.

Helstu tillögur starfshópsins eru:

  • Sett verði lög sem hafa að markmiði að stöðva kennitöluflakk og misnotkun félögum með takmarkaða ábyrgð (hlutafélög og einkahlutafélög). Þar verði horft til sameiginlegra tillagna ASÍ og SA.
  • Heimild til að setja forsvarsmenn fyrirtækja í tímabundið bann við þátttöku í stjórnun félaga með takmarkaða ábyrgð við tilteknar aðstæður (atvinnurekstrarbann).
  • Tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu.
  • Sett verði skylda til keðjuábyrgðar í lög um opinber innkaup.
  • Komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi.
  • Þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði (Lögreglan, Ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun) og aðilar vinnumarkaðarins geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
  • Refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna vegna ítrekðra brota gegn starfsmönnum verði útvíkkuð.
  • Bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna, t.a.m. með stofnun ráðgjafarstofu og aukinni upplýsingagjöf á vefnum.

Alþýðusamband Íslands gerir kröfur til þess að tillögunum verði fylgt fast eftir. Mörgum þeirra má þegar hrinda í framkvæmd á meðan aðrar kalla á frekari vinnu og útfærslur. Til að svo megi verða þarf pólitískan vilja og skuldbindingu stjórnvalda.

ASÍ mun í viðræðum við stjórnvöld, í tengslum við gerð kjarasamninga, leggja ríka áherslu að allt verði gert til að sporna við félagslegum undirboðum, mansali og annari brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Stöðvum félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Yfirlýsing Alþýðusambands Íslands

Páskaúthlutun í orlofshúsum AFLs 2019

Paskar2019

Umsóknarfrestur fyrir orlofsdvöl í orlofshúsum AFLs páskavikuna 17.- 24. april 2019 er til og með 26. febrúar, úthlutun fer fram á skrifstofu félagisns á Egilsstöðum kl.15:00 þann 27. feb.

Orlofshús sem eru í boði eru á Einarsstöðum, Illugastöðum, Klifabotni og í Ölfusborgum. Sækja þarf um á þar til gerðu eyðublaði

Eingreiðslur ríki og sveitafélög

Eingreiðslur til félagsmanna sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum.
Vakin er athygli á eftirfarandi ákvæðum í kjarasamningum:

Sveitarfélög
Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni í fullu starfi sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019.
Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfstíma og starfshlutfall í desember

Ríkið
Sérstök eingreiðsla, 45.000 kr., greiðist þann 1. febrúar til þeirra sem eru í fullu starfi í janúar 2019. Þeir sem eru í hlutastarfi og/eða hafa starfað hluta úr mánuði skulu fá hlutfallslega greiðslu.

Saga Alþýðusambandsins

Saga Alþýðusambandsins er komin út á rafrænu formi og er full ástæða til að hvetja fólk til að skoða. Höfundur verksins er Sumarliði Ísleifsson, málmsmiður og sagnfræðingur. 

Verkið er í tveimur bindum og rekur sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi í máli og myndum og er mikilvæg heimild um lífskjör og lífsbaráttu alþýðunnar í eitt hundrað ár.  Verkið hefur verið búið sérstaklega til útgáfu á netinu.

https://asisagan.is/