Þar kemur einnig fram að skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða 159.174 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launafólks í lífeyrissjóð samanborið við 151.978 kr. á mánuði árið 2018. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 4,7%.
Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launamaður að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Launamaðurinn byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 261.329 kr. á mánuði árið 2019, samanborið við 249.514 kr. á mánuði árið 2018.
Í nýsamþykktum lögum um breytingar á tekjuskatti einstaklinga skulu þrepamörk tekjuskatts á árinu 2019 nú uppreiknuð í réttu hlutfalli við hækkun á vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði í staðinn fyrir breytingar á launavísitölu. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 11.125.045 kr. árstekjur, eða 927.087 kr. á mánuði fyrir næsta ár, að því er segir í tilkynningunni.
Þar er einnig bent á að tryggingagjald lækkar um 0,25 prósentustig um áramótin.
Hægt er að lesa sig til um skatthlutföll einstaklinga vegna ársins 2019, persónuafsláttur á vef ríkisskattstjóra
Þessi frétt er tekin af vef Starfsgreinasambandsins, www.sgs.is