Aðalfundur sjómannadeildar AFLs Starfsgreinafélags verður haldinn þriðjudaginn 28. desember 2021 kl. 14:00 í húsnæði félagsins að Búðareyri 1 Reyðarfirði
Dagskrá
Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
Kjaramál
Kosning stjórnar
Önnur mál
AFL Starfsgreinafélag
Sjómannadeild
Ath. vegna fjöldatakmarkana verðum við að takmarka fjölda þátttakenda á fundinum sjálfum við 20 manns. Fundurinn verður einnig í fjarfundi. Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku á fundinn með tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og taka fram hvort viðkomandi óski eftir að vera á staðnum eða í fjarfundi. Lokað verður fyrir skráningar kl. 11:00 28. desember. Einungis þeir sem eru skráðir til þátttöku geta verið vissir um að fá sendan hlekk á fundinn eða geta setið fundinn á staðnum.
Það er rétt að ítreka ábendingar sem AFL hefur áður flutt - að þegar fyrirtæki eða stofnanir sendir starfsfólk í sóttkví að eigin vali - eiga þessi sömu fyrirtæki og stofnanir að greiða full laun á meðan þeirri sóttkví stendur.
Það eru aðeins ein sóttvarnaryfirvöld á landinu. Ef þau senda einstakling í sóttkví gilda lög nr. 24/2020 um laun í sóttkví. Ef fyrirtæki eða stofnanir hafa einhverjar ýtarlegri kröfur uppi - þ.e. krefjast þess að starfsmenn séu í sóttkví jafnvel þótt að sóttvarnaryfirvöld hafi ekki gefið fyrirmæli um sóttkví - ber fyrirtækjunum skylda til að greiða full laun á meðan.
Nokkur misskilningur hefur verið uppi og jafnvel dæmi um að tekið sé af orlofsdögum vegna þessara "fyrirtækjasóttkvía" en það er með öllu óheimilt.
Þá er félagsmönnum bent á að "sjálfskipuð sóttkví" þ.e. þegar fólk ákveður sjálft að setja sig í sóttkví - veitir ekki rétt til launa, hvorki hjá launagreiðanda viðkomandi né frá Vinnumálastofnun.
Einnig að ferðist fólk erlendis og fyrir liggur að viðkomandi muni lenda í sóttkví við heimkomu - á sá hinn sami ekki endilega rétt á launum í sóttkví.
Á síðu Vinnumálastofnunar er að finna ýtarlegar skýringar og svör við mörgum spurningum sem fólk kann að hafa.
Á örlagatímum hefur hreyfing vinnandi fólks lagt áherslu á að verja hið opinbera velferðarkerfi, afkomu fólks og auka jöfnuð í gegnum skattkerfið. Í nýjum stjórnarsáttmála, sem gefinn er út þegar verðbólga er mikil og erfiðar aðstæður á húsnæðismarkaði, er lögð áhersla á að vaxa út úr kreppunni í stað þess að auka álögur. Minna fer fyrir þeim ásetningi að verja opinbera velferðarkerfið og mæta langtímaáskorunum sem felast í húsnæðisvanda, öldrun þjóðar og að styrkja tekjustofna til framtíðar.
Sérstaklega veldur það vonbrigðum að loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana 2019 eru endurunnin og útþynnt í sáttmálanum. Þar ber hæst loforð um húsnæðismarkaðinn og þann kostnað sem heimilin bera, hvort sem fólk er á leigumarkaði eða eignamarkaði. Stuðningur stjórnvalda við húsnæðisöryggi og tilfærslukerfin mun ráða úrslitum í kröfum verkalýðshreyfingarinnar í aðdraganda kjarasamninga 2022 og 2023.
Hvergi er minnst á að styrkja atvinnuleysistryggingakerfið, setja á leigubremsu á leigumarkað, styrkja vaxtabótakerfið eða skilgreina hlutfall íbúðabygginga á félagslegum grunni. Enn á ný er hins vegar lofað að lögfesta 15,5% framlag launafólks í lífeyrissjóði, loforð sem hefur ítrekað verið svikið, svo og að staðfesta lög gegn kennitöluflakki. Þá hefur kröfum hreyfingarinnar um önnur atriði, svo sem útvíkkun á keðjuábyrgð, framhald átaksins Allir vinna og staðfesting á févíti vegna launaþjófnaðar ekki verið mætt í sáttmálanum.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fagnar því að nú sé kominn til starfa félags- og vinnumarkaðsráðherra sem lýsir áherslum nýrrar ríkisstjórnar á vinnumarkaðsmál. Gríðarlegar áskoranir eru framundan vegna endurnýjunar kjarasamninga næstu tvö árin og réttlátra umskipta vegna tækni- og loftslagsbreytinga. Þar mun öllu máli skipta að vera í góðum tengslum við verkalýðshreyfinguna, verja sjálfstæði hennar og slagkraft og styrkja möguleika fólks til starfsmenntunar og þátttöku á heilbrigðum vinnumarkaði.
Miðstjórn Alþýðusambandsins fagnar staðfestingu á auknu samráði við vinnumarkaðinn og er tilbúið til viðræðna um bætt verklag í kjaraviðræðum. Verkalýðshreyfingin mun hins vegar berjast gegn öllum hugmyndum um að auka völd ríkissáttasemjara sem lúta að takmörkun verkfallsréttar eða samningsumboðs og sjá til þess að þær munu ekki ná fram að ganga.
Alþýðusambandið er tilbúið í alla samvinnu sem lýtur að því að efla sí- og endurmenntun og auka tækifæri fólks til menntunar. Þrátt fyrir yfirlýsingar hefur skort aðgerðir í málaflokknum. Í raun hefur dregið úr stuðningi við framhaldsfræðslu síðustu ár og áratugi svo ekki verður við unað á tímum örra breytinga á vinnumarkaði. Þá er viðvarandi áskorun að vinda ofan af ótryggum ráðningasamböndum, uppgangi gulra stéttarfélaga og gera fólki kleift að njóta þeirra réttinda sem verkalýðshreyfingin hefur byggt upp áratugum saman.
Samþykkt á miðstjórnarfundi ASÍ á fullveldisdaginn 2021
Nýtt fréttabréf AFLs er komið út en einu sinni á ári gefur félagið út þematengt fréttabréf í sérstöku broti. Að þessu sinni fjallar fréttabréfið um flokkspólitísk tengsl verkalýðshreyfingarinnar í gegnum árin. Alþýðusamband Íslands var í upphafi "verkalýðsarmur" Alþýðuflokksins svipað og er jafnvel enn fram á þennan dag á Norðurlöndunum hinum. Átök Alþýðuflokksfólks við Sósíalista og Kommúnista innan hreyfingarinnar ágerðust um miðja síðustu öld og einnig fóru hægri menn að blanda sér í baráttuna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur var að lokum "dæmt" inn í Alþýðusambandið sem hafði neitað VR um aðild því það félag var lengi undir stjórn Sjálfstæðismanna.
Rætt er við nokkra fyrrum forystumanna Alþýðusambandsins sem tengdir voru inn í flokksstjórnmálin. Þá er rætt við nokkra trúnaðarmanna AFLs og loks er "drottningarviðtalið" við sameiningarsinnann Sigurð Hólm Freysson, varaformann AFLs, en hann stóð m.a. að sameiningu sveitarfélaga í Fjarðabyggð, sameiningu Lífeyrissjóða Austurlands og Norðurlands í Stapa Lífeyrissjóð og sameiningu stéttarfélaga á Austurlandi í AFL Starfsgreinafélag. Þá er og skemmtilegt viðtal við Smára Geirsson á Neskaupstað - en enginn er fróðari um sögu verkalýðshreyfingarinnar á Austurlandi en hann.
Þá er boðið upp á stjórnmálaprófið í blaðinu. Ertu sósíalisti, vinstri eða hægri krati eða kannski bara frjálshyggjupési?
Starf trúnaðarmanna hefur verið nokkuð til umræðu síðustu vikur. AFL Starfsgreinafélag og forysta þess telur nauðsynlegt að árétta þá mikilvægu en jafnframt viðkvæmu stöðu sem trúnaðarmenn geta lent í. Trúnaðarmenn eru fyrst og fremst trúnaðarmenn samstarfsfólks – þ.e. kjörnir af samstarfsfólki til að koma fram fyrir þeirra hönd og gæta hagsmuna þeirra.
Það er því mikilvægt að trúnaðarmaður sem stígur fram með sameiginleg mál samstarfsmanna finni alltaf að hann/hún hafi fullan stuðning frá félaginu og að samstarfsfólk standi með honum/henni.
AFL Starfsgreinafélag hefur alltaf lagt áherslu á að veita trúnaðarmönnum félagsins þann stuðning sem þeir hafa þörf á og vilja þiggja. Félagið gerir það öllu jafna með því að bjóða aðgang að þeim námskeiðum sem í boði eru og sérstakur starfsmaður AFLs annast samskipti við trúnaðarmenn þannig að þeir geti alltaf leitað eftir stuðningi og handleiðslu þegar á þarf að halda.
Formaður og aðrir í forystu félagsins mæta síðan með trúnaðarmönnum á vinnustaðafundi eða á fundi með stjórnendum vinnustaða þegar þess er óskað. Þetta er mikilvægt til að trúnaðarmenn skynji það bakland sem félagið veitir í deilum við launagreiðendur.
Það er og ekki síður mikilvægt að hinn almenni félagsmaður sýni trúnaðarmanni sínum stuðning og standi með honum í deilum sem upp kunna að koma – þannig að launagreiðandi skynji þungann af félagasamtökunum en telji sig ekki bara þurfa að eiga við „einn uppivöðslusamann“ starfsmann.
Það eru því miður nokkur dæmi þess að trúnaðarmenn hafi hætt þar sem þeir fengu aldrei stuðning vinnufélaga þegar á hólminn var komið – að þegar verkstjórar gengu á samstarfsfólkið varðandi þau umkvörtunarefni sem þau sjálf höfðu beðið trúnaðarmann um að annast – að þá kannaðist enginn við neitt og sögðu allt í himnalagi. Þá stendur trúnaðarmaðurinn eftir einn og berskjaldaður og lítur út eins og einhver vandræðamaður sem var að efna til illinda.
Þá hætta trúnaðarmenn og vinnustaðurinn er í verri stöðu á eftir.
Varða, rannsóknarstofnun ASÍ og BSRB á sviði vinnumarkaðar, félags-og efnhagsmála, stendur nú fyrir könnun á stöðu launafólks. Spurt er um tekjur, stöðu á húsnæðismarkaði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu ásamt fleiru. Könnunin er alls ekki löng og má reikna með að hægt sé að svara henni að fullu á innan við 10 mínútum. Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.
Könnunin verður opin til 8. desember og er unnt að svara henni á netinu á slóðinni:
Varða gerði sambærilega könnun fyrir ári síðan og er mikilvægt vegna rannsókna á högum launafólks að ná góðri þátttöku.
AFL Starfsgreinafélag og Eining Iðja hafa nýlokið viðamikilli viðhorfskönnun og því munum við ekki senda boð um þessa könnun í tölvupósti eða textaskilaboðum á einstaka félagsmenn þar sem við teljum nóg komið af slíkum hvatningarpóstum í bili. Engu að síður hvetur AFL Starfsgreinafélag félagsmenn sína til að svara þessari könnun og aðstoða heildarsamtökin við að fá skýra mynd af aðstæðum launafólks.
Unnt er að svara könnuninni á íslensku, ensku og pólsku. Dregið verður úr svarendum og vinna þrír þátttakenda 30.000 króna gjafakort hver.