Beðið hertra aðgerða!
AFL bauð fram aðstoð sína og að greiða hluta kostnaðar við að ráðinn yrði sérstakur vinnustaðaeftirlitsmaður til að herða eftirlit með því að erlendir starfsmenn væru rétt skráðir og væru að njóta lög-og samningsbundinna kjara.
Fundur AFLs með félagsmálaráðherra var í kjölfar þess að í ljós kom að á Kárahnjúkasvæði var fjöldi erlendra starfsmanna að störfum án þess að vera rétt skráðir til landsins og óvíst um kjör þeirra og réttindi. Vinnumálastofnun veitti fyrirtækjum sem höfðu mennina í vinnu, fresti til að fullnægja lagaskyldu um skráningu þrátt fyrir harðorða ályktun miðstjórnar ASÍ þar sem m.a. sagði:
„Miðstjórnin krefst þess að starfsemi þeirra fyrirtækja, sem staðin hafa verið að því að hafa ekki launauppgjör og tryggingar starfsmanna í samræmi við leikreglur íslensks vinnumarkaðar, verði umsvifalaust stöðvuð."
Stjórn AFLs sendi einnig frá sér ályktun þar sem m.a. segir:
„Stjórn AFLs lýsti fullum stuðningi við yfirlýsingar formanns félagsins og framkvæmdastjóra síðustu daga og jafnframt að verði ekki gripið tafarlaust til harðra aðgerða í vinnustaðaeftirliti af hálfu Vinnumálastofnunar, mun félagið grípa til allra þeirra aðferða sem það telur skila árangri til að berjast gegn félagslegum undirboðum."
Enn hefur lítið bólað á áður boðuðum aðgerðum Vinnumálastofnunar og þar sem frestur fyrirtækjanna á Kárahnjúkasvæðinu rennur út 20. sept. mun AFL ganga eftir því skráningu allra starfsmanna umræddra fyrirtækja verði lokið og sannreynt að kjör þeirra standist kjarasamninga og lög en krefjast ella að starfssemi verði stöðvuð.
Í kjölfar fjölmiðlaumræðu fyrr í mánuðinum um málefni erlends launafólk er starfar hér óskráð og án tilskilinna réttinda og kjara hafa hundruðir erlendra starfsmanna, er þegar voru við störf á landinu, verið skráðir. Þannig er ljóst að umræðan skilaði nokkrum árangri en forysta AFLs mun fylgja því fast eftir að staðið verði við fyrirheit um hert vinnustaðaeftirlit.