AFL starfsgreinafélag

Stóri bróðir vill skoða þig

security camera sign icon vector 20751329

 

Síðustu mánuði hafa nokkrir félagsmenn AFLs verið boðaðir í skoðun hjá „trúnaðarlæknum“ launagreiðenda sinna. Einhverjir hafa mætt í þessar skoðanir en aðrir hafa haft samband við AFL og við ráðleggjum fólki ekki að fara til trúnaðarlækna ef það ekki beinlínis óskar þess sjálft.

Störf trúnaðarlækna hafa verið mjög til skoðunar síðustu ár og lagarammi um störf þeirra er mjög götóttur.  Trúnaðarlæknar hafa í raun enga aðra stöðu en aðrir læknar og eiga að vera bundnir af sama trúnaði og aðrir læknar. Þeir starfa líka undir sömu lögum og siðareglum.  Eitt grundvallaratriði í lögum um heilbrigðisstarfsmenn er að það er ekki hægt að þvinga neinn til að þiggja læknisþjónustu.

Allir kjarasamningar gera ráð fyrir að starfsfólk tilkynni veikindi sín til næsta yfirmanns og framvísi læknisvottorði ef þess er óskað.  Fyrirtækin hafa verið að bæta í og það hefur verið mjög í tísku að skikka fólk til að tilkynna veikindi sín til einkafyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.

Þá virðist og vera að færast í vöxt að fólk er „boðað“ í viðtal og skoðun hjá trúnaðarlækni.

Í þessu sambandi er rétt að benda fólki á eftirfarandi.

  1. Öllum er frjálst að velja sinn eigin lækni og ekki er hægt að senda fólk til læknis sem það ekki vill hitta.
  2. Læknisvottorð sem læknir með starfsleyfi, gefur út, er fullgilt og mun duga í innheimtumáli komi til þess að innheimta þurfi laun í veikindum. Það þarf mjög ríkar ástæður til að véfengja læknisvottorð og dómstólar hafa að jafnaði tekið læknisvottorð góð og gild.
  3. Á læknisvottorði sem sent er fyrirtæki á alls ekki að koma fram hvaða veikindi það eru sem hrjá fólk – heldur aðeins hvort viðkomandi er vinnufær eða ekki. Sama gildir í raun um læknisvottorð sem send eru stéttarfélögum v. sjúkradagpeninga.
  4. Á sama hátt kemur í sjálfu sér hvorki verkstjóra né starfsmanni einkaheilbrigðisþjónustu við hvað er að starfsmanni. Fólk á að hringja og tilkynna sig veikt. Annað ekki.

Grundvallarreglan er sú að það kemur engum við nema einstaklingnum sjálfum og hans lækni hvaða sjúkrómar hrjá viðkomandi og það er viðkomandi í sjáflsvald sett hvort hann vill deila þeim upplýsingum og þá hverjum.

Það er auðvitað ekkert að því að tilkynna sig veikan og segja að flensan hafi lagt mann í rúmið – en viðkomandi ræður því sjálfur.  Ef launagreiðandi vill læknisvottorð – þá á að biðja um vinnufærnisvottorð en ekki fullgilt sjúkradagpeningavottorð.