AFL starfsgreinafélag

AFL og RSÍ tapa í félagsdómi.

AFL Starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslans töpuðu í Félagsdómi, sem háð var vegna starfsmanna álvers ALCOA Fjarðaáls í Reyðarfirði.  Málið snerist um orlofsrétt vaktavinnustarfsmanna í álverinu en forsendur útreiknings á orlofi breyttust í vinnutímastyttingar sem gekk í gildi 2016.  ALCOA Fjarðaál hélt áfram að reikna orlof miðað við fyrri forsendur allt fram til 2020 en bar þá fyrir sig að um mistök hefði verið að ræða.

Orlof hafði fram til þess tíma verið þannig að úttekt orlofsstunda var 8 klst. fyrir hverja 8 klst. vakt.  Vaktavinnustarfsmaður með langan starfsaldur sem vann á 8 tíma vöktum átti t.d. 240 orlofsstundir sem hann gat nýtt til að taka 30 orlofsvaktir á launum. Þær vaktir gátu samkvæmt gildandi vaktakerfi dreifst á allt að 7 vikur í kjölfar vinnutímastyttingar vaktavinnustarfsmanna, væri orlof tekið samfellt. Byggðu stéttarfélögin m.a. á að sú framkvæmd væri í samræmi við orðanna hljóðan í kjarasamningi og þá venju sem hefði skapast, auk þess að benda á tilurð vinnutímastyttingarinnar og önnur atriði.

Mat félagsdóms var að orlofsdagar gætu flestir orðið 30, eða 6 vikur, miðað við starfsfólk skilaði vinnuframlagi sína virka daga vikunnar. Ákvarða þyrfti hversu margar orlofsvaktir viðkomandi starfsmaður ætti í orlof miðað við það vaktafyrirkomulag sem unnið væri eftir og þann dagafjölda sem viðkomandi ætti í orlofsrétt, þannig að heildar orlofsréttur vaktavinnustarfsfólks og dagvinnustarfsfólks yrði sá sami í vikum talið.

Félagsdómur taldi að ekki væri komin á „venja“ sem breytt gæti þessu og talið var að nýr orlofsútreikningur Alcoa rúmaðist innan kjarasamnings aðila og orlofslaga. Sá útreikningur fólk m.a. í sér að vaktavinnustarfsmaður sem ætti t.d. 30 daga orlofsrétt skyldi fá 26,65 orlofsvaktir. Sjá dóminn í heild

Réttur vaktavinnufólks til að sækja trúnaðarmanna- námskeið

Félagsdómur kvað upp sumarið 2018 og staðfestir óskertan rétt vaktavinnufólks til að sækja trúnaðarmannanámskeið. Í dómnum reyndi á túlkun ákvæða um trúnaðarmenn í kjarasamningi SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvort starfsmaður í vaktavinnu ætti rétt á launum án vinnuframlags vegna fyrirfram ákveðinna kvöldvakta þá daga sem trúnaðarmannanámskeið fór fram.

Viðkomandi trúnaðarmaður taldi sig hafa uppfyllt vinnuskyldu sína með setu á trúnaðarmannanámskeiði og taldi sig ekki eiga að tapa reglubundnum launum þó hann mætti ekki á kvöldvaktir í vinnu sinni í beinu framhaldi af námskeiðinu. Akureyrarbær taldi svo ekki vera heldur hefði honum borið að mæta til vinnu að námskeiði loknu enda hefði námskeiðið farið fram utan hans vinnutíma.

Niðurstaða Félagsdóms í málinu var skýr og ótvíræð, þ.e.a.s. að krafa um að trúnaðarmaður ynni kvöldvaktir strax í kjölfar námskeiðsins ella sæta launaskerðingu hamlaði rétti hans til að sækja trúnaðarmannanámskeið, enda fæli það í raun í sér 16 tíma vinnudag sem samræmdist hvorki ákvæðum kjarasamninga né laga.

Niðurstaða þessi festi í sessi áralanga túlkun stéttarfélaga um greiðan og óskertan aðgang trúnaðarmanna til að sækja nauðsynlega fræðslu. sjá dóminn hér

VLFA - Vann mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdómi vegna eingreiðslu

vinnustadaskirteiniVerkalýðsfélag Akraness stefndi Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm og vann málið. Málið varðaði kjarasamning sem gerður var 2016, en í honum  var samþykkt að verða við ósk Sambands íslenskra sveitafélaga að láta kjarasamninginn gilda ekki til 1. Janúar 2019 heldur til 31. mars 2019 eða nánar tilgetið að lengja samninginn um þrjá mánuði.

Til að bæta starfsmönnum upp það tekjutap sem hlaust við þessa þriggja mánaða lengingu á samningum var starfsmönnum boðin 42.500 króna eingreiðsla fyrir 100% starf sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019, en orðrétt hljóðaði ákvæðið svona:

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Á heimasíðu VLFA segir að það ótrúlega gerist síðan að þegar eingreiðslan er greidd út þá greiða Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit hana ekki út til svokallaðs tímakaupsfólks og þegar VLFA kallar eftir skýringum frá þessum aðilum hverju það sætti að greiðsla hafi ekki borist til tímakaupsfólk.

Svarið sem félagið fékk var að þetta væru tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki þennan rétt, sem var vægast sagt undarleg niðurstaða.

Félagið hafði samband við Samband íslenskra sveitafélaga og kallaði eftir útskýringum á þessum tilmælum til sveitafélaga og eftir nokkra fundi þar sem sambandið óskaði eftir að fá að skoða þessa ákvörðun sína betur var niðurstaðan að hún skildi standa óhögguð. Rök þeirra voru m.a. þau að Reykjavíkurborg og Ríkið hafi ekki greitt þessa eingreiðslu til tímakaupsfólks.

Nú er hins vegar dómur fallinn í Félagsdómi þar sem tekið var undir allar kröfur Verkalýðsfélags Akraness en í dómsorði Félagsdóms segir orðrétt:

"Viðurkennt er að félagsmenn stefnanda Verkalýðsfélags Akraness, sem voru við störf hjá stefndu, Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit, í desember 2018 og voru enn í starfi í janúar 2019 og unnu starf sem fellur undir kafla 1.4. í kjarasamningi réttargæslustefnda, Samband íslenskra sveitafélaga, og stefnanda sem upphafslega átti að gilda frá 1. maí 2011 til 30. Júní 2014, eigi rétt á eingreiðslu samkvæmt grein 1.2 í kjarasamningum, eins og henni var breytt með 5. kafla samkomulagsins sömu aðila um breytingu og framlengingu kjarasamningsins, sem gilti frá 1. janúar 2016 til 31. mars 2019. Stefndu Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit, greiði Verkalýðsfélagi Akraness, 500.000 krónur í málskostnað."

Dómur þessi er fordæmisgefandi á landsvísu og getur því haft áhrif á félagsmenn AFLs Starfsgreinafélags.  Félagið hefur þegar sent bréf á öll sveitarfélögin á svæðinu vegna málsins.

Málefni tímavinnufólks hefur verið áberandi í samningaviðræðum og má búast við að samningnum fylgi bókun um stöðu þess.  Benda má á í þessu sambandi í núgildandi kjarasamningi aðila eru ákvæði um að ef vinnutími starfsmanna sveitarfélaga er umfram sem nemur 20% starfshlutfalli - skal ráða þá á föst laun með viðeigandi starfshlutfalli. sjá dóminn

Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms um greiðslu fjarvistaruppbót

Vatnajökulsþjóðgarði ber að greiði fjarvistaruppbót til viðbótar við laun samkvæmt kjarasamningi SGS. Var talið að samkvæmt orðanna hljóðan yrði ákvæðið skilið svo að það ætti við um tímabundin störf á vinnustað, þar á meðal vinnustað sem teldist fastur í skilningi samningsins, svo lengi sem vinnustaðurinn væri í óbyggðum þar sem ekki væri unnt að sækja hann frá heimili eða fasti aðstöðu vinnuveitanda í byggð. Sjá dóminn í heild sinni

Fullur sigur í héraðsdómi.

Fullur sigur vannst í dómsmáli í Héraðsdómur Austurlands sem félagið höfðaði fyrir hönd félagsmanns. Málið snerist um greiðslur orlofs á laun, en atvinnurekandi hélt því fram að samkomulag væri um að þær væru innifaldar í launum. Honum tókst ekki að færa sönnur á það enda ekki gert ráðningarsamning við starfsmanninn. Sjá dóminn í heild