Lífeyrisgreiðslur Stapa um 5 milljarðar
Raunávöxtun Stapa Lífeyrissjóðs á árinu 2017 nam 5,2% og meðalávöxtun síðustu 5 ára hefur verið 4%. Ef litið er til 10 ára er meðalávöxtun 1,2% en þá er hrunárið mikla með ísamanburðinum en árin þar á undan hafði verið mjög góð ávöxtun hjá sjóðnum þannig að meðalávöxtun til lengri tíma hefur verið vel yfir 3,5% viðmiðinu.
Stapi hélt ársfund sinn í síðustu viku í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og voru fundarmenn um 100 talsins. Heildareignir sem Stapi er með til varðveislu námu um 204 milljörðum í árslok og er tryggingafræðileg staða sjóðsins neikvæð sem nemur 0,9%. og skánaði á liðnu ári um 0,6%.
Virkir sjóðsfélagar eru rösklega 14.000 manns en lífeyrisþegar um 9.000. Iðgjöld síðasta árs voru samtals i, 10 milljarðar en greiddur lífeyrir röskir 5 milljarðar. Lífeyrisgreiðslur voru að mestu eftirlaun eða tæp 70% og örorkulífeyrir um 25% og barna-og makalífeyrir um 5%.
Kosið var um 4 stjórnarmenn og voru frá launþegum þær Huld Aðalbjarnardóttir, Húsavík og Særún Björnsdóttir, Hofsósi kosnar. Frá launagreiðendum voru Valdimar Halldórsson, Húsavík og Unnar Már Pétursson, Siglufirði, kosnir.
Fyrir í stjórn voru frá launþegum Sverrir Albertsson, Eskifirði, og Tryggvi Jóhannsson, Akureyri. Úr stjórn gengu Þórarinn Sverrisson, Sauðárkrók, og Ágúst Torfi Hauksson, Akureyri.
Á ársfundinum var m.a. rætt um eigendastefnu lífeyrissjóða og flutti Sverrir Albertsson, stjórnarmaður frá AFLi, ávarp: http://www.asa.is/info/1371-raedha-sverris-albertssonar-a-adhalfundi-stapa-2018